Ingveldur Ýr syngur jafnt óperutónlist sem söngleikja- og kabaretttónlist. Hún hefur komið fram víða um heim bæði á óperusviði og á tónleikapallinum.
Ingveldur Ýr var um skeið fastráðin við Óperuna í Lyon í Frakklandi og söng þar stór og smá hlutverk með stjórnendum á borð við Kent Nagano og Sir Neville Marriner. Við Bastilluóperuna söng Ingveldur Nornina í Hans og Grétu og hefur sungið á alþjóðlegum tónlistarhátíðum, m.a. á Tanglewood hátíðinni í Bandaríkjunum í Peter Grimes undir handleiðslu Maestro Seiji Ozawa.
Á íslensku óperusviði söng Ingveldur aðalhlutverk í uppfærslum á Évgení Ónegin, Niflungahringnum, Á valdi Örlaganna, Cosi fan Tutte og titilhlutverkið í Dido og Eneas. Ingveldur söng hlutverk Frú Lóettar í Sweeney Todd og Tyrkja-Böbu í Rake´s Progress eftir Stravinsky, hvoru tveggja hjá Íslensku Óperunni.
Hún hefur einnig frumflutt óperuhlutverk ma. Í The Cenci eftir Havergal Brian í Queen Elizabeth Hall í London og Z-Ástarsagu eftir Sigurð Sævarsson.
Ingveldur Ýr hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands m.a. í Guðrúnarkviðu eftir Jón Leifs; Níundu Sinfóníu Beethovens, Carmen, á Vínartónleikum og í D Dúr messu Dvoraks. Hún söng hlutverk Mrs. Sedley í uppfærslu Listahátíðar í Reykjavík á Peter Grimes.
Ingveldur Ýr hefur fengið fjölda viðurkenninga og styrki fyrir flutning sinn og þátttöku í verkefnum ma. frá Reykjavíkurborg, Evrópusambandinu, FÍL, 92nd St. Y í New York og Meistersinger söngkeppninni í Graz.
Ingveldur Ýr gaf út einsöngsdiskinn Portrett með úrvali af lögum frá ferli sínum, við útsetningar Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og hljóðfæraleik Caput Session Ensemble.
Meðfram starfi sínu sem söngkona hefur Ingveldur Ýr um árabil rekið sitt eigið söngstúdíó og staðið fyrir námskeiðum í raddbeitingu og söng af ýmsu tagi. Hún lærði kórstjórn í Tónskóla Þjóðkirkjunnar og er stofnandi og stjórnandi sönghópsins Spectrum, sem hefur getið sér gott orð.
Ingveldur Ýr hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík 15 ára gömul eftir balletnám í Listdansskóla Þjóðleikhússins. Átján ára fór hún utan til náms í söng og leiklist við Tónlistarskóla Vínarborgar og lauk mastersgráðu frá Manhattan School of Music í New York 1991.
Einnig hefur hún lokið 2. stigi í raddfræðum hjá Jo Estill Voice Training, auk fjölda námskeiða og masterclassa hjá m.a. Charles Spencer, Martin Katz og Phyllis Curtin. Kennarar hennar voru Guðmunda Elíasdóttir, Svanhvít Egilsdóttir, Cynthia Hoffmann og Paul Farrington.
Úrdrættir úr blaðaumsögnum:
Ingveldur Ýr er frábær í flutningi leikhústónlistar og hefur tekið sér sess sem ein besta söng-leikkonan á Íslandi; Söngkona sem sameinar tónlistargáfur og húmor; alvöru díva með glæsilegt útlit og framkomu; húmoristi of afbragðsleikkona; Flutningur Ingveldar var svo fyndinn að maður grét af hlátri; Falleg hlýleg rödd með óvenju þokkafulla sviðsnærveru; Listamaður af guðs náð sem gefur sig algerlega tónlistinni á vald; the fascinating, stage commanding I. Jonsdottir, who with her sparkling mezzo soprano voice, was even able to sing the trickiest intervals with cantabile; Ingveldur’s voice is one of those refined but supercharged instruments….can readily adapt to the demands of opera and musicaltheatre….