Söngtímar á tímum Covid

Einkatímar í Covid hafa verið skrýtnir en þá er bara að hugsa í lausnum. Tímum er þá stillt þannig upp að nemandi snýr frá kennara og horfir í spegil sem kennarinn sér líka.  Passað er upp á loftun og opinn gluggi allan tímann. Sprittað er fyrir og eftir tímann!

Hægt er að panta tíma í síma 898 0108, eða á ingveldur@gmail.com

Söngtímar og kórastarf í fullum gangi!

Nú er rétt farið að birta og söngnemendur að taka við sér. Það er skemmtilegt að fylgjast með því hve söngur hefur góð áhrif á geðheilsu fólks. Ætli það sé ástæðan fyrir hinum mikla söngáhuga okkar Íslendinga? Upplyfting í skammdeginu? Ég get að minnsta kosti fullyrt að flestir fara glaðari úr söngtímanum! Kóræfingar hjá Spectrum eru líka gleðiaukandi, en hópurinn æfir reglulega á þriðjudagskvöldum. Þar er tekið á erfiðari verkefnum og sigurinn yfir því að geta komist í gegnum eitthvað sem virðist ómögulegt í byrjun er oft sjálfstyrkjandi. Gamla máltækið sannast þar oft: “hvar söngur hljómar – sestu glaður – það syngur enginn vondur maður”.

Nýjasti meðlimur söngstúdíósins er SL – sönghópur Landsnets. Það er starfsmannakór Landsnets, frábær hópur sem æfir reglulega á miðvikudögum og kemur fram við ýmis tækifæri fyrirtækisins. Starfsmannakórar eru dásamlegt fyrirbæri, þar sem samkennd og samvinna er elfd í söng og ég er sannfærð um að það skilar sér í fyrirtækið. A.m.k. ef allir læra að anda rétt og beita röddinni vel, er þá ekki minna stress á vinnustaðnum?

Nýlega lauk ég að kenna yfir 50 íþróttafræðingum raddbeitingu –  í tali – ekki söng. Frábært hjá HR að bjóða upp á þetta námskeið, því meirihluti íþróttakennara endar með raddvandamál fyrr eða síðar á starfsævinni. Þetta var einstaklega góður hópur og vann vel. Fólk er að vakna til meðvitundar um svo margt; raddbeitingu, mataræði, geðheilsu og svo mætti lengi telja.

Hér geta allir komið í söngtíma; bæði þeir sem vilja syngja fyrir sjálfan sig; þeir sem hafa aldrei þorað að syngja og þeir sem ætla sér stóra hluti. Fyrir mér eru allir jafnvelkomnir og verkefnin eru jafnskemmtileg.

Einnig er alltaf gaman að kenna þeim sem vilja bara læra að beita röddinni í tali og ekki syngja. Fyrir þá er ég með sérprógramm bæði fyrir rödd og framsögn, þökk sé áralangri reynslu úr kennslunni hjá HR og Þekkingarmiðlun.