Gleðilegt nýtt söngár kæru söngvinir!
Vonandi söngst gamla árið vel! Árið sem leið var viðburðaríkt í sögu Söngstúdíósins. Þar má nefna landvinninga sönghópsins Spectrum. Spectrum fór eftir miklar æfingar og fjáraflanir til Ítalíu til að taka þátt í kórakeppni. Lenti Spectrum þar í silfurflokki og fékk mjög góða endurgjöf. Sungnir voru tónleikar að vori, hausti og tekið þátt í sönggjörningi á Menningarnótt. Spectrum endaði starfsárið á því að koma fram í beinni útsendingu í sjónvarpinu í þættinum Ísland í dag. Söngkennarinn Ingveldur Ýr ákvað að rifja upp gamla takta og stíga á svið, eitthvað sem gerist kanske heldur sjaldan söngkonan þarf að sinna söngþyrstum nemendum og rekstri stúdíós. Söng hún tónleika m.a. í Hörpu, á Egilsstöðum og í Laugarneskirkju og tók auk þess þátt í óperuuppfærslunni Peter Grimes á Listahátíð.
En nú er nýtt söngár runnið upp, nemendur streyma inn og ekkert lát á því. Fólk hefur yfirleitt samband á emaili og fær þannig upplýsingar um fyrirkomulag tímanna og bókana. Spectrum hóf árið á því að taka þátt í masterclass námskeiði hjá hinum virta kennara og fyrrum King’s singers meðlimi Paul Phoenix. Kórinn æfir nú nýtt prógramm fyrir vortónleika í byrjun maí. Ingveldur Ýr mun æfa með tríó Fókus og taka þátt í “Landsbyggðartónleikum” á vegum Félagi íslenskra tónlistarmanna í sumar.
Syngið heil!