Verur og Vættir á Kjarvalsstöðum


á miðvikudaginn kl. 20 verðum við Inga&Gurry með tónleika á Kjarvalsstöðum.
Tónleikarnir eru Jónsmessutónleikar og hafa yfirskriftina Verur og Vættir.
Efnisskráin er frábær, við Gurry erum búnar að leggja mikla vinnu í að finna réttu lögin! Tónleikarnir sem eru á vegum FÍT og Kjarvalsstaða átti að vera eingöngu með íslenskum tónskáldum, og lögðum við því hausinn og eyrun í bleyti við að finna það rétta.
Við Gurry eigum auðvitað ýmislegt í handraðanum síðan við fórum til Kanada 2002 og sungum fullt af íslensku efni þar. (sjá inga&gurry á síðunni undir: english)
En á miðvikudaginn flytjum við lög eftir núlifandi höfunda; Atla Heimi, John Speight, Jón Ásgeirs, Tryggva Baldvins, Hildigunni Rúnars, Hjálmar H. Ragnars, Jón Þórarins og Jórunni Viðar. Í vikunni sem leið hittum við Jón Ásgeirs og Jórunni og unnum með þeim í lögunum. Það var mjög sérstakt að vinna lag með manneskjunni sem samdi lagið! Jórunn varð nýlega áttræð og spilar eins og herforingi á píanó! Hún sagði mér heilmikið til, mas. með Unglinginn í skóginum sem ég hef sungið milljón sinnum…
Alltaf lærir maður eitthvað

Einsöngsnám og Stigspróf:

Einsöngsnám fer fram í einkakennslu og getur hver nemandi ráðið þar ferðinni í samráði við mig.

Við bjóðum upp á prógramm fyrir stigspróf, í formi einkatíma, samsöngstíma með tungumálakennslu og vikulegra tíma í tónfræði og nótnalestri og tónlistarsögu. Fræðigreinarnar fara fram í samstarfi við Söngskóla Sigurðar Dementz, en söngtímarnir eru hjá mér.

Ég met hvern nemanda í stig og í lok annar eða vetrarins er tekið próf með prófdómara.

Kennt er eftir staðlaðri námsskrá Menntamálaráðuneytisins.

Skólinn er skráður hjá Prófanefnd Íslands og fá því nemendur viðurkennd próf samkvæmd nýjum samræmdum prófum Prófanefndarinnar.

Þetta prógramm hentar þeim sem hafa verið í einkatímum og sungið lög af einhverju ráði; vilja taka námið fastari tökum og læra um leið alla aðra þætti sem snúa að söng, þ.e. fræðigreinar og tungumál.

Stigsnemendum gefst einnig kostur á að vera með í Sönghópnum og reyna þannig enn fremur á tónheyrn og nótnalestur.