Kennsla hefst 2. september n.k.

Nú fer að líða að kennslu í haust. Vorið var vægast sagt skrítið hjá söngkennurum og kórstjórum, en þannig var jú allt samfélagið. Kóræfingar fóru fram á Zoom, sem er mjög erfitt því ekki er hægt að syngja saman á netinu, nema að allir taki sig upp og sendi inn upptökur sem síðan eru klipptar saman. Einkatímar fóru einnig fram á netinu, bæði á messenger og zoom. Við þurftum að leggja höfuð í bleyti hvernig við gætum nýtt tímann og komið einhverri þjálfun og kennslu áfram. Það tókst og nú er t.d. sönghópurinn Spectrum með nýja efnisskrá sem kórinn bíður spenntur eftir því að geta flutt, vonandi fyrir áhorfendur. Það voru smá vonbrigði að geta ekki sungið nýja prógrammið okkar á Menningarnótt en það var jú við búið. Nú er hópurinn hins vegar farinn að huga að hátíðartónleikum sem fyrirhugað er að halda 30. nóvember. Það verða tónleikar með blöndu af jólalögum og hátíðlegum lögum í uppáhaldi, auk einhverra af lögunum sem okkur langar svo að syngja fyrir áheyrendur!

Söngkennsla í einkatímum hefst í byrjum september og fer vonandi fram með hefðbundnu sniði, þó með tveggja metra bili og öllum viðeigandi sóttvörnum. Það verður þó að segjast að enn eru skiptar skoðanir vísindamanna um það hvort söngur smiti meira en venjuleg raddbeiting í tali. Þangað til annað kemur í ljós höldum við okkar striki og syngjum áfram.

Klukknanna köll

Jólatónleikar Spectrum verða að þessu sinni í Grafarvogskirkju 10. desember kl. 20 .

Á dagskránni er okkar hefðbundna blanda; jólalög sem allir kannast við, lög sem allir þekkja en eru í nýstárlegri útsetningu og svo nokkur sem þið hafið kannski aldrei heyrt áður. Í ár syngjum við til dæmis verk og útsetningar eftir Ola Gjeilo, Báru Grímsdóttur, Michael McGlynn, Skarphéðin Þór Hjartarson, Mykola Leontovich, Pentatonix og Sigvalda Kaldalóns.

Hljóðfæraleikarar eru Vignir Þór Stefánsson á píanó, Haukur Gröndal á klarinett og saxófón og Þorvaldur Ingveldarson á slagverk.

Miða má kaupa á tix.is, en einnig er hægt að fá miða á afsláttarverði hjá kórfélögum til 3. desember.