Kennsla hefst 15. janúar!

Mjög viðburðaríkt ár er að baki hjá Söngstúdíóinu. Þar ber hæst flutningar í nýtt kennsluhúsnæði í Vættaborgum 144; en einnig var annað og stærra æfingahúsnæði tekið í notkun fyrir Spectrum og til námskeiða. Spectrum flutti sálumessu Rutters með hljómsveit sem ég stjórnaði og ég bætti við mig námi í kórstjórn. Auk þess tók ég að mér að vera formaður FÍS; Félags íslenskra söngkennara, félags sem telur yfir 100 meðlimi, heldur úti fræðslustarfi, auk þess að vera virkur þátttakandi í alþjóðasamtökum söngkennara.
Í janúar ár hvert söðla ég eilítið um og tek að mér að kenna íþróttafræðingum í HR raddbeitingu í tali. Það er afarskemmtileg tilbreyting og hjálpar til við að þróa nýjar og sífellt betri kennsluaðferðir í raddbeitingu.
Einkatímar í söng halda áfram eftir sem áður og hefjast vikuna 15. janúar. Eftirspurnin eftir söng og raddkennslu er gríðarleg hér á landi og tel ég mig heppna að geta starfað við hana eingöngu, fyrir utan auðvitað að syngja sjálf það sem til fellur á okkar litla landi.
Gleðilegt ár kæru söngvinir og megi tónarnir flæða áfram um hálsa ykkar lausir og fagrir!
Ingveldur Ýr