Um Ingveldi Ýri

Kæri Söngunnandi,

Hefurðu verið að spá í að læra söng í einhvern tíma?
En einhvernvegin ekki gert alvöru úr því?

Það eina sem þú þarft að gera, til að byrja að læra að syngja, er að taka upp símann núna eða senda tölvupóst og biðja um einn einkatíma. Það er svona einfalt.

Fólkið sem kemur til mín er af öllum starfstéttum, á öllum aldri, allt frá algjörum byrjendum til þekktra einstaklinga í söngheiminum.

Söngur og söngkennsla hefur verið partur af lífi mínu alla tíð sl. 40 ár, eða síðan ég byrjaði sjálf í fyrsta söngtímanum mínum 15 ára gömul.

Síðan þá hefur margt gerst, draumarnir voru stórir og væntingarnar miklar.

Eftir mikið nám, þolinmæði, tár og svita lauk ég síðan mastersnámi í söng í Bandaríkjunum,

nám sem ég sé ekki eftir að hafa farið í, því það veitti mér kunnáttu og um leið kennsluréttindi við hvaða tónlistarháskóla sem er í heiminum.

Ég hef komið víða við…

Það sem síðan á eftir fylgdi voru fjölmörg ár í “bransanum”, prufusöngur; vinna við óperuhús úti í hinum stóra mikilúðuga óperuheimi, tónleikaferðir erlendis og söngur hér heima, bæði á óperusviðinu, með Sinfóníunni, og svo við öll þau ótal tækifæri sem menn vilja heyra söng og skemmtun hér á Íslandi.

Þegar ég var í námi sagði ég með þótta; ég ætla að “meika” það sem söngkona og mun sko aldrei verða söngkennari!
Stundum vilja örlögin manni samt einmitt það sem maður heldur að maður vilji ekki gera!

Snemma á ferlinum fór fólk úr ýmsum áttum að leita til mín vegna hinna og þessara raddvandamála eða túlkunar spurninga og þess háttar, alveg án þess að ég væri nokkuð að sækjast eftir því að segja nokkrum manni til, enda átti ég nóg með að fá mína eigin leiðsögn, að taka henni og melta hana!

En ég fór smám saman að finna hvað ég átti auðvelt með að kenna og ná til fólks. Og það sem meira er, ég fór að finna hvað mér þótti það gaman og gefandi að kenna!

Brátt fór ég að sækja meira í það að kenna en að syngja og tók kennsluna á endanum oft fram yfir það að vera söngkona.

Minn styrkur sem kennari…

Það sem ég held að hafi alltaf verið minn styrkur sem kennari, er að ég lærði sjálf hjá mjög ólíkum kennurum í ólíkum menningarheimum, bæði í hinni gömlu hefðbundnu Vínarborg og í hinni hröðu tæknilega hugsandi New York.

Ég lærði að meta virðinguna gagnvart nemandanum sem viðskiptavini í Bandaríkjunum, en um leið að segja nemandanum sannleikan eins og hann er, útfrá kröfuhörðum væntingum evrópubúans.

Seinna bætti ég við mig meiri þekkingu á líffræði raddarinnar með námskeiðum hjá Jo Estill, en hún kenndi söngvurum jafnt sem leikurum og talmeinafræðingum að vinna með röddina út frá “anatómíu” raddarinnar.

Allir geta sungið…

Aðra sýn inn á sönglistina hefur það gefið mér, hvað söngur er í raun gefandi fyrir alla, bæði þá sem syngja og þá sem hlusta.

Allir geta í raun sungið, þótt allir komi ekki endilega til með að vinna við það! Það að læra um röddina sína getur gefið manneskju svo ómetanlega margt og kennt henni um leið ýmislegt um hana sjálfa, því hljóðfærið okkar er jú alveg innbyggt, ekkert til að styðjast við nema líkaminn og þetta ótrúlega líffæri – röddin.

En ef maður er laglaus ?

Það hefur verið margsannað að þetta ofnotaða hugtak “að vera laglaus” er í raun og veru ekki til. Röddinni og tóneyranu er stjórnað af ákveðinni heilastöð, og afar ólíklegt að sú stöð sé bara “ónýt”.

Hins vegar er margt sem bendir til eins og í mörgu öðru, að fólk er með mismunandi samhæft tóneyra og raddbönd, rétt eins og samhæfingin í dansi, skrift, stærðfræði, eða hverju öðru sem menn læra.

Þetta er sem sagt spurning um þjálfun.

Söngur er gefandi og sjálfsstyrkjandi…

Það að syngja gefur manneskjunni mikið frelsi og ánægju og fær hana til að einbeita sér “inn á við” í þessu annars “út á við” innstillta lífi sem við lifum í dag. Hún lærir afar margt um sig sjálfa.

Það er ekki að ósekju hugtakið: “Hvar söngur hljómar – sestu glaður – það syngur enginn vondur maður.

Hvernig fara söngtímar fram ?

Söngtímar fara þannig fram að við kynnumst fyrst líffræðinni í sambandi við röddina, gerum öndunaræfingar til að stjórna röddinni, og síðan alls kyns raddæfingar. Þegar nemandinn fer að ná tökum og stjórn á hljóðfærinu sínu þá getur hann farið að prófa alls kyns lög. Ég kalla það að læra heilbrigða grunnraddbeitingu sem hver og einn getur síðan byggt sinn stíl á.

Lagaval getur síðan verið af öllu tagi, bæði almenn sönglög, popplög, klassík, þjóðlög ofl. allt eftir því hvað nemandinn vill einbeita sér að.

Er söngnám alltaf bara klassískt ?

Að syngja klassík er ekki endilega allt öðruvísi en að syngja dægurlög, þetta er meira spurning um hvaða stíl maður notar. Það að syngja klassík og óperutónlist er þjálfun í ákveðnum stíl sem tekur nokkur ár að þjálfa.

Eins er poppið með ákveðin stíl sem hver og einn poppari byggir upp hjá sjálfum sér.

Þetta er það sem gerir raddþjálfun svo einstaka og skemmtilega, að hver og einn er í raun að þjálfa sína eigin rödd og getur ekki gert hana að rödd einhvers annars, nema til að leika einhvern annan og herma eftir öðrum persónum.