Sönghópurinn Spectrum hefur nú starfað í 18 ár. Fjölbreytileiki, lífleg framkoma og flutningur metnaðarfullra útsetninga hefur einkennt hópinn, enda er hann samansettur af kraftmiklu söngfólki á öllum aldri, úr ólíkum geirum atvinnulífsins, liðlega 20 manns. Spectrum hefur komið fram við ýmis tækifæri, bæði við mannfagnaði og á tónleikum. Þar má nefna kosningavöku bandaríska sendiráðsins, tónleikaröð Háskólans á Bifröst, Friðarhátíð í Hörpu, Dag íslenskrar náttúru hjá Umhverfisstofnun og árlega á Menningarnótt, m.a. í Kaldalóni, Norðurljósasal og Hörpuhorninu í Hörpu. Spectrum hefur haldið jóla- og vortónleika árlega, m.a. í Salnum í Kópavogi, Gamla Bíói, í Tjarnarbíói, á Café Rósenberg, í Norræna húsinu, Neskirkju, Fríkirkjunni, Háteigskirkju, Grafarvogskirkju, Langholtskirkju og nú síðast í Seltjarnarneskirkju.
Spectrum hefur einnig ráðist í stærri verkefni, t.a.m. Sálumessu eftir John Rutter, sem hópurinn flutti árið 2012 með kammersveit, bæði í Neskirkju og Akureyrarkirkju. Á aðventu má sjá Spectrum syngja víða um borgina við ýmis tækifæri, m.a. á Laugaveginum á vegum Reykjavíkurborgar og í Hörpu.
Spectrum hefur tekið þátt í kórakeppnum erlendis. Þar má nefna tónlistarhátíðina og kórakeppni að nafni “Torre del Lago Puccini” á Ítalíu og lenti kórinn þar í silfurflokki keppninnar. Þá varð hópurinn efstur í flokki blandaðra kóra í alþjóðlegu kórakeppninni Canta al Mar í Katalóníu. Spectrum vakti athygli í sjónvarpsþættinum Kórar Íslands á Stöð 2 haustið 2017 fyrir að velja sér krefjandi útsetningar eftir ýmsa þekktustu tónsmiði samtímans og komst í úrslit. Spectrum hefur einnig leitað til þekktra leiðbeinanda á námskeið, m.a. hjá Paul Phoenix fyrrum söngvara í Kings singers en með honum söng Spectrum inná plötuna “Travels with my microphone” þar sem Paul Phoenix syngur með uppáhaldskórunum sínum. Spectrum fór einnig í vinnuferð í byrjun 2020 til Dublin til að vinna með Michael Mcglynn stjórnanda Anúna og hélt tónleika í Christ Church í Dublin.
Gæði, galdur og gleði eru einkennisorð Spectrum!
Framtíðarplön Spectrum innihalda upptöku á geisladiski, taka þátt í tónlistarhátíðinni aavf í Árósum 2022 og þátttaka í kóramóti Nordklang á Íslandi í lok júní 2022. Uppfærsla á stærri kóraverkum 20. aldar eftir tónskáld eins og Rutter, Whitacre og Lauridsen, auk íslenskra tónskálda er einnig á stefnuskránni.
Spectrum æfir á þriðjudagskvöldum kl. 19-22. Á æfingum fær hópurinn heilmikla þjálfun og leiðsögn frá stjórnanda sínum í raddtækni og tónheyrn. Meðlimir þurfa að hafa talsverða söngreynslu, t.d. úr söngtímum eða öðrum kórum. Hver rödd í hópnum skiptir sköpum, þar sem hópurinn er í “kammerkórsstærð” eða u.þ.b. 25 manns. Gerðar miklar kröfur til tóneyra hvers og eins og ætíð sungið utanbókar. Oft syngja lengra komnir meðlimir einsöng með hópnum. Sungið er ýmist með undirleik eða a capella. Gjarnan er fenginn gestakennari reglulega til að kenna tengt efni og hafa leikkonurnar Ólöf Sverrisdóttir, Helga Braga og Andrea Katrín kennt leikræna tjáningu og sviðshreyfingar. Einnig hefur Spectrum fengið tónskáld í heimsókn til að leiðbeina með tónverk, t.d. Hjálmar H. Ragnarsson og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Hópurinn er þekktur fyrir líflega framkomu og sönggleði.
Hópurinn starfar allan ársins hring, en meðlimir skuldbinda sig eina önn í einu. Sumarönnin er stutt, aðeins æft í byrjun ágúst fyrir Menningarnótt. Haustönn er frá sept – desember og endar með jólatónleikum, vorönn er janúar – maí sem endar með vortónleikum.
Mánaðargjald í Spectrum er 10.000.- og innheimtist með greiðsluseðli í heimabanka.