Spectrum

 

48360625_2180773835306992_4694307174724141056_o

Spectrum í Langholtskirkju

Sönghópurinn Spectrum hefur nú starfað í 18 ár. Fjölbreytileiki, lífleg framkoma og flutningur metnaðarfullra útsetninga hefur einkennt hópinn, enda er hann samansettur af kraftmiklu söngfólki á öllum aldri, úr ólíkum geirum atvinnulífsins, liðlega 20 manns. Spectrum hefur komið fram við ýmis tækifæri, bæði við mannfagnaði og á tónleikum. Þar má nefna kosningavöku bandaríska sendiráðsins, tónleikaröð Háskólans á Bifröst, Friðarhátíð í Hörpu, Dag íslenskrar náttúru hjá Umhverfisstofnun og árlega á Menningarnótt, m.a. í Kaldalóni, Norðurljósasal og Hörpuhorninu í Hörpu. Spectrum hefur haldið jóla- og vortónleika árlega, m.a. í Salnum í Kópavogi, Gamla Bíói, í Tjarnarbíói, á Café Rósenberg, í Norræna húsinu, Neskirkju, Fríkirkjunni, Háteigskirkju, Grafarvogskirkju,  Langholtskirkju og nú síðast í Seltjarnarneskirkju. 

Spectrum hefur einnig ráðist í stærri verkefni, t.a.m.  Sálumessu eftir John Rutter, sem hópurinn flutti árið 2012 með kammersveit, bæði í Neskirkju og Akureyrarkirkju. Á aðventu má sjá Spectrum syngja víða um borgina við ýmis tækifæri, m.a. á Laugaveginum á vegum Reykjavíkurborgar og í Hörpu.

Spectrum hefur tekið þátt í kórakeppnum erlendis. Þar má nefna tónlistarhátíðina og kórakeppni að nafni “Torre del Lago Puccini” á Ítalíu og lenti kórinn þar í silfurflokki keppninnar. Þá varð hópurinn efstur í flokki blandaðra kóra í alþjóðlegu kórakeppninni Canta al Mar í Katalóníu. Spectrum vakti athygli í sjónvarpsþættinum Kórar Íslands á Stöð 2 haustið 2017 fyrir að velja sér krefjandi útsetningar eftir ýmsa þekktustu tónsmiði samtímans og komst í úrslit. Spectrum hefur einnig leitað til þekktra leiðbeinanda á námskeið, m.a. hjá Paul Phoenix fyrrum söngvara í Kings singers en með honum söng Spectrum inná plötuna “Travels with my microphone” þar sem Paul Phoenix syngur með uppáhaldskórunum sínum. Spectrum fór einnig í vinnuferð í byrjun 2020 til Dublin til að vinna með Michael Mcglynn stjórnanda Anúna og hélt tónleika í Christ Church í Dublin. 

Gæði, galdur og gleði eru einkennisorð Spectrum!

Jólatónleikar 2015

Fríkirkjan 2015

Framtíðarplön Spectrum innihalda upptöku á geisladiski, taka þátt í tónlistarhátíðinni aavf í Árósum 2022 og þátttaka í kóramóti Nordklang á Íslandi í lok júní 2022.  Uppfærsla á stærri kóraverkum 20. aldar eftir tónskáld eins og Rutter, Whitacre og Lauridsen, auk íslenskra tónskálda er einnig á stefnuskránni. 

Spectrum á Ítalíu 2015

Spectrum á Ítalíu 2015

 

 

 

 

 

 

 

 

Spectrum æfir á þriðjudagskvöldum kl. 19-22. Á æfingum fær hópurinn heilmikla þjálfun og leiðsögn frá stjórnanda sínum í raddtækni og tónheyrn. Meðlimir þurfa að hafa talsverða söngreynslu, t.d. úr söngtímum eða öðrum kórum. Hver rödd í hópnum skiptir sköpum, þar sem hópurinn er í “kammerkórsstærð” eða u.þ.b. 25 manns. Gerðar miklar kröfur til tóneyra hvers og eins og ætíð sungið utanbókar. Oft syngja lengra komnir meðlimir einsöng með hópnum. Sungið er ýmist með undirleik eða a capella. Gjarnan er fenginn gestakennari reglulega til að kenna tengt efni og hafa leikkonurnar Ólöf Sverrisdóttir, Helga Braga og Andrea Katrín kennt leikræna tjáningu og sviðshreyfingar. Einnig hefur Spectrum fengið tónskáld í heimsókn til að leiðbeina með tónverk, t.d. Hjálmar H. Ragnarsson og Hreiðar Inga Þorsteinsson. Hópurinn er þekktur fyrir líflega framkomu og sönggleði.

Á Menningarnótt í Hörpu 2015

Á Menningarnótt í Hörpu 2015

Hópurinn starfar allan ársins hring, en meðlimir skuldbinda sig eina önn í einu. Sumarönnin er stutt, aðeins æft í byrjun ágúst fyrir Menningarnótt. Haustönn er frá sept – desember og endar með jólatónleikum, vorönn er janúar – maí sem endar með vortónleikum.

Mánaðargjald í Spectrum er 10.000.- og innheimtist með greiðsluseðli í heimabanka.