Spectrum

Spectrum er sönghópur sem í er kraftmikið söngfólk á öllum aldri, úr ólíkum geirum atvinnulífsins.  Fjölbreytileiki, lífleg framkoma og flutningur metnaðarfullra útsetninga hefur einkennt hópinn, en hann hefur nú starfað í fjórtán ár. Stjórnandi Spectrum er Ingveldur Ýr söngkona og raddþjálfari, sem er vel þekkt í íslensku tónlistarlífi.

Spectrum hefur komið fram við ýmis tækifæri. Þar má nefna kosningavöku bandaríska sendiráðsins, tónleikaröð Háskólans á Bifröst, Dag íslenskrar náttúru hjá Umhverfisstofnun og árlega á Menningarnótt, nú síðast við opnun Menningarnætur á Austurvelli, en einnig í Tjarnarbíói og Hörpu. Spectrum hefur haldið jóla- og vortónleika árlega, m.a. á Café Rósenberg, í Norræna húsinu, Neskirkju, Fríkirkjunni og Háteigskirkju.

Jólatónleikar 2015

Jólatónleikar í Fríkirkjunni 2015

Spectrum hefur einnig ráðist í stærri verkefni, t.a.m.  Sálumessu eftir John Rutter, sem hópurinn flutti nýverið með kammersveit, bæði í Neskirkju og Akureyrarkirkju. Á aðventu má sjá Spectrum syngja víða um borgina við ýmis tækifæri, m.a. á Laugaveginum á vegum Reykjavíkurborgar.

Í lok september sl. tók Spectrum þátt í alþjóðlegri tónlistarhátíð og kórakeppni að nafni “Torre del Lago Puccini” sem fór fram í Viareggio á Ítalíu. Spectrum lenti í silfurflokki keppninnar  í blönduðum a capella söng.  Söng Spectrum auk þess á opnunartónleikum keppninnar. Nýverið söng Spectrum einnig í masterclass hjá Paul Phoenix, fyrrum meðlim Kings singers.

Framtíðarplön Spectrum innihalda upptöku á geisladiski, fara erlendis í kórakeppni og mót haustið 2017 og uppfærslu á stærri kóraverkum 20. aldar eftir tónskáld eins og Rutter, Whitacre og Lauridsen, auk íslenskra tónskálda.

Spectrum á Ítalíu 2015

Spectrum á Ítalíu 2015

Spectrum æfir á þriðjudagskvöldum kl. 19-22. Á æfingum fær hópurinn heilmikla þjálfun og leiðsögn frá stjórnanda sínum í raddtækni og tónheyrn.

Meðlimir þurfa að hafa einhverja söngreynslu, t.d. úr söngtímum eða öðrum kórum. Hver rödd í hópnum skiptir sköpum, þar sem hópurinn er í “kammerkórsstærð” eða u.þ.b. 20 manns. Gerðar miklar kröfur til tóneyra hvers og eins og ætíð sungið utanbókar. Oft syngja lengra komnir meðlimir einsöng með hópnum. Sungið er ýmist með undirleik eða a capella. Gjarnan er fenginn gestakennari á hverri önn til að kenna tengt efni og hafa leikkonurnar Ólöf Sverrisdóttir, Helga Braga og Andrea Katrín kennt leikræna tjáningu og sviðshreyfingar. Hópurinn er þekktur fyrir líflega framkomu og sönggleði.

Á Menningarnótt í Hörpu 2015

Á Menningarnótt í Hörpu 2015

Hópurinn starfar allan ársins hring, en meðlimir skuldbinda sig eina önn í einu, þ.e. júní – ágúst sem endar með stóru atriði á Menningarnótt, sept – des. sem endar með jólatónleikum, jan – maí sem endar með vortónleikum.

Mánaðargjald í Spectrum er 10.000.- og innheimtist með greiðsluseðli í heimabanka.