Spectrum

 

48360625_2180773835306992_4694307174724141056_o

Spectrum í Langholtskirkju

Gleði, gæði og galdur eru einkunnarorð Spectrum. Kórinn hefur mikla reynslu í tónleikahaldi. Hann var stofnaður af Ingveldi Ýr Jónsdóttur og nemendum hennar fyrir 20 árum. Spectrum er blandaður kór 28 söngvara á öllum aldri. Kórinn flytur samtímatónlist og vandaðar útsetningar dægur- og þjóðlaga. Spectrum komst í úrslit kórakeppninnar Kórar Íslands og hefur tekið þátt í keppnum erlendis við góðan orðstír. Spectrum hefur unnið með reyndum leiðbeinendum, til dæmis írska tónskáldinu Michael McGlynn, stjórnanda Anuna sönghópsins og Paul Phonix, fyrrum söngvara King´s Singers, en með honum söng kórinn í upptöku sem hann gerði með uppáhaldskórum sínum á plötunni “Travels with my microphone”. Spectrum naut þess heiðurs, ásamt fimm öðrum íslenskum kórum, að vera valinn til að taka þátt í sönghátíð í Reykjavík sem lauk  með tónleikum í Eldborg. Hátíðin var leidd af Eric Whitacre en hann er bandarískur hljómsveitar- og kórstjóri og eitt vinsælasta tónskáld samtímans á sviði kórtónlistar. Spectrum hefur látið bæði semja og útsetja lög fyrir sig, nú síðast lagið “Það snjóar” í útsetningingu Helgu Margrétar Marzellíusardóttur sem heyra má á Spotifyrás hópsins. Spectrum tók þátt í tónlistarhátíðinni í Árósum, bæði á tónleikum og námskeiðum og á kóramótinu Nordklang í Reykjavík og söng jafnframt á opnunartónleikum kórstjóraráðstefnu í Norðurljósasal Hörpu ásamt 5 öðrum kórum. 

Spectrum hefur einnig ráðist í stærri verkefni, t.a.m.  Sálumessu eftir John Rutter, sem hópurinn flutti árið 2012 með kammersveit, bæði í Neskirkju, Sauðárkróki og Akureyrarkirkju. 

Spectrum æfir á þriðjudagskvöldum kl. 19-22. Á æfingum fær hópurinn heilmikla þjálfun og leiðsögn frá stjórnanda sínum í raddtækni og tónheyrn. Meðlimir þurfa að hafa talsverða söngreynslu, t.d. úr söngtímum eða öðrum kórum. Hver rödd í hópnum skiptir sköpum, þar sem hópurinn er í “kammerkórsstærð” eða u.þ.b. 25-28 manns. Gerðar miklar kröfur til tóneyra hvers og eins og ætíð er flutningur utanbókar. Oft syngja kórfélagar einsöng með hópnum. Sungið er ýmist með undirleik eða a capella. Gjarnan er fenginn gestakennari reglulega til að kenna tengt efni og hafa leikkonurnar Ólöf Sverrisdóttir, Helga Braga og Andrea Katrín kennt leikræna tjáningu og sviðshreyfingar. Einnig hefur Spectrum fengið tónskáld í heimsókn til að leiðbeina með eigin tónverk, t.d. Hjálmar H. Ragnarsson og Hreiðar Inga Þorsteinsson.

Á Menningarnótt í Hörpu 2015

Á Menningarnótt í Hörpu 2015

Haldnar eru prufur í Spectrum í byrjun haust og vorannar. en hópurinn starfar allan ársins hring. Meðlimir skuldbinda sig eina önn í einu. Sumarönnin er stutt, aðeins æft í byrjun ágúst fyrir Menningarnótt. Haustönn er frá sept – desember og endar með jólatónleikum, vorönn er janúar – maí sem endar með vortónleikum.

Mánaðargjald í Spectrum er 10.000.- og innheimtist með greiðsluseðli í heimabanka.