Gleðilegt nýtt söngár!

Gleðilegt nýtt söngár kæru söngvinir!

Vonandi söngst gamla árið vel! Árið sem leið var viðburðaríkt í sögu Söngstúdíósins. Þar má nefna landvinninga sönghópsins Spectrum. Spectrum fór eftir miklar æfingar og fjáraflanir til Ítalíu til að taka þátt í kórakeppni. Lenti Spectrum þar í silfurflokki og fékk mjög góða endurgjöf. Sungnir voru tónleikar að vori, hausti og tekið þátt í sönggjörningi á Menningarnótt. Spectrum endaði starfsárið á því að koma fram í beinni útsendingu í sjónvarpinu í þættinum Ísland í dag. Söngkennarinn Ingveldur Ýr ákvað að rifja upp gamla takta og stíga á svið, eitthvað sem gerist kanske heldur sjaldan söngkonan þarf að sinna söngþyrstum nemendum og rekstri stúdíós. Söng hún tónleika m.a. í Hörpu, á Egilsstöðum og í Laugarneskirkju og tók auk þess þátt í óperuuppfærslunni Peter Grimes á Listahátíð.

En nú er nýtt söngár runnið upp, nemendur streyma inn og ekkert lát á því. Fólk hefur yfirleitt samband á emaili og fær þannig upplýsingar um fyrirkomulag tímanna og bókana. Spectrum hóf árið á því að taka þátt í masterclass námskeiði hjá hinum virta kennara og fyrrum King’s singers meðlimi Paul Phoenix. Kórinn æfir nú nýtt prógramm fyrir vortónleika í byrjun maí. Ingveldur Ýr mun æfa með tríó Fókus og taka þátt í “Landsbyggðartónleikum” á vegum Félagi íslenskra tónlistarmanna í sumar.

Syngið heil!

Jólatónleikar Spectrum í Fríkirkjunni 3. desember

Spectrum heldur árlega jólatónleika sína 3. desember kl. 20. Að þessu sinni verða tónleikarnir í Fríkirkjunni, enda er hún í miklu uppáhaldi hjá Spectrum.
Miðaverð er kr. 3000.- og posi við innganginn. 
Hægt verður að kaupa miða í forsölu hjá meðlimum Spectrum á kr. 2500.- fram til 1. desember. Frítt er inn fyrir 12 ára og yngri. 

Jólatónleikar Spectrum einkennast af mikilli jólastemmningu og fjölbreyttri dagskrá fyrir alla aldurshópa. Flutt verða þekkt lög við nýstárlegar útsetningar og falleg óþekktari lög. Píanóleikari er Vignir Þór Stefánsson. Auk hans leikur Þorvaldur Ingveldarson á slagverk og Rannveig Rós Ólafsdóttir á flautu.

Spectrum jól - Fríkirkjan